Genki Instruments hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2019 fyrir Wave hringinn sem hannaður er til að auka upplifun og túlkun í tónlist. Hringurinn er framsækin tæknilausn sem eykur möguleika tónlistamanna til sköpunar á þægilegan og notendavænan hátt.
Hönnunarverðlaunin 2019
Sigurvegari – Wave eftir Genki Instruments
Genki Instruments hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2019 fyrir Wave hringinn sem hannaður er til að auka upplifun og túlkun í tónlist. Hringurinn er framsækin tæknilausn sem eykur möguleika tónlistamanna til sköpunar á þægilegan og notendavænan hátt.
„Genki Instruments er framsækið og hönnunardrifið tónlistartæknifyrirtæki þar sem hönnun, tækni, verkfræði, og tónlist renna saman í eitt. Wave er einstakt dæmi um framsækna hugmynd frumkvöðlafyrirtækis þar sem rannsókn, þróun og prófanir í gegnum allt hönnunarferlið skilar algerlega nýrri upplifun til notenda sem hefur hlotið lof víða um heim.“
Besta fjárfesting í hönnun – Omnom
Omnom súkkulaðigerð hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2019.
„Ferlið á bak við vöruþróun er spennandi en Omnom hefur frá byrjun unnið með hönnuðum í öllu framleiðsluferlinu að heildrænni vöruupplifun, hvort sem það er súkkulaðið sjálft eða með vandaðri hönnun á umbúðum og framsetningu í verslunum. Fyrst með hönnuðinum André Visage og nú með Veronicu Filippin. Slík samvinna í öllu ferlinu er skýrt dæmi um hvernig hönnun getur haft afgerandi áhrif á vaxtarsögu og velgengni fyrirtækis.“
Heiðursverðlaun – Manfreð Vilhjálmsson, arkitekt
Hönnun og byggingar Manfreðs eru meðal bestu dæma um góðan arkitektúr á Íslandi en verkin bera vitni um vandaða hönnun og arkitektúr þar sem efni, form og samhengi skapa eina órjúfanlega heild.
Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hefur markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi. Einstakur starfsferill sem spannar yfir 60 ár endurspeglar áræðni í fjölbreyttum verkefnum og metnaðarfulla listræna og faglega sýn. Eftir Manfreð liggur fjöldi tímamótaverka sem bera vott um einstaka hæfni til að takast á við margvíslegar áskoranir staðhátta og uppbyggingar í ungu samfélagi.
Í verkum Manfreðs birtast margvíslegar nýjungar í íslenskri húsagerðalist en jafnframt sýna verk hans frá fyrstu tíð næmi á umhverfi og viðleitni við að leysa verkefni í samræmi við tíðaranda og í skýru menningarlegu samhengi.
Forval dómnefndar 2019
Endurmörkun Þjóðminjasafnið – Jónsson & Le’macks
Hönnun og endurmörkun Þjóðminjasafns Íslands er einföld og látlaus en um leið glæsileg lausn á heildarásýnd stofnunar sem snertir alla landsmenn. Hönnun nýs einkennis safnsins endurvekur áhuga gesta á spennandi og nútímalegu safni og minnir okkur á þær gersemar sem safnkosturinn hefur að geyma. Í hönnuninni er unnið með fjórar ólíkar leturgerðir sem er hægt að rekja allt aftur til 9. aldar og litir sóttir úr handverki þjóðarinnar. Einkennið er innblásið af söguþjóðarinnar og hlutum úr safnkosti því ásamt letri og grafískum lausnumeru ljósmyndir af gullmolum úr vörslu safnsins sýndar og til verður forvitnilegurheimur sem er freistandi að skoða nánar.
HEIMA – Búi Bjarmar og UNICEF
HEIMA er áhugavert hönnunarverkefni sem skoðar móttöku flóttabarnabarna í leitað alþjóðlegri vernd frá sjónarhóli barnanna. Í verkefninu rýna Búi Bjarmar Aðalsteinsson, hönnuður og UNICEF hvernig staðið er að móttöku fylgdarlausra flóttabarna, sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi,með notenda- og mannmiðaða hönnun og velferð barnanna að leiðarljósi.
HEIMA er frábært dæmi um hvernig hægt er að beita aðferðafræði hönnunar til aðbæta upplifun notenda og einfalda ferla í opinberri þjónustu. Vinnuferlið ogniðurstöður verkefnisins er aðgengilegt á verkefnidheima.com.
Lauf – True grit
True Grit er nýtt malarhjól sem byggir á hönnun Lauf Forks á léttasta hágæðademparagaffli í heimi. Lauf kom fyrst á markað með Lauf Forks, gaffallinn sem hefur rutt brautina fyrir hönnun reiðhjóla undir vörumerki Lauf, True Grit sem eru eðlilegt framhald af þróun Lauf Forks. Hjólið er frábært dæmi um hönnun, nýsköpun og vöruþróun en uppfinningar vörumerkisins eru nú í alþjóðlegu einkaleyfaferli. True Grit hefur vakið athygli keppnisfólks í hjólreiðum um allan heim og helstu net- og prentmiðlar í hjólaheiminum hafa síðustu ár lofað gaffalinn og nú hjólið.
Listasafn Akureyrar – Kurt og Pí
Með hönnun nýrrar viðbyggingar við Listasafnið á Akureyri hefur orðið til nýtt kennileiti í borgarlandslagi Akureyrar. Ný viðbygging og endurhönnun sögulegs iðnaðarhúsnæðis í Gilinu blæs nýju lífi í eldri byggingarnar og tengir saman ólík rými með umferðarás sem býr til nýsjónræn tengsl milli hins náttúrulega og byggða landslags. Sýningarrýmin eru fjölbreytileg, hönnun og arkitektúr eru framkvæmd af nákvæmni og fágun sem endurspeglast í stóru og smáu.
Dómefnd 2019
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, formaður, Hönnunarsafni Íslands.
Sigrún Birgisdóttir, arkitekt, Listaháskóli Íslands.
Hörður Lárusson, grafískur hönnuður, Hönnunarmiðstöð Íslands.
Sigrún Halla Unnarsdóttir, fatahönnuður, Hönnunarmiðstöð Íslands.
Daniel Golling, blaðamaður á alþjóðlegu sviði hönnunar og arkitektúrs.
Edda Björk Ragnarsdóttir, lögfræðingur, SI.