HÖNNUNarVErÐlaUN íslaNds 2018

header

Hönnunarverðlaunin 2017

Sigurvegari Marshall-húsið

Marshall-húsið sem upphaflega var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Arkitektarnir Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, eigendur Kurt og Pí stofunnar, hafa leitt hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta.

„Verkið kristallar velheppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. Arkitektarnir þróuðu verkið allt frá hugmyndastigi og leiddu saman breiðan hóp til að skapa heilsteypt verk. Unnið er vel með sögu byggingar og samhengi staðar og til verður nýr áfangastaður á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni. Verkið er gott dæmi um hvernig með aðferðum hönnunar verður til nýsköpun í borgarumhverfinu.“

Besta fjárfesting í hönnun Bláa lónið

Viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun er veitt fyrirtæki sem hefur haft hönnun og arkitektúr að leiðarljósi alla tíð í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni.

„Bláa lónið hefur frá upphafi leitað samstarfs við hönnuði á öllum sviðum uppbyggingar. Hönnun er órjúfanlegur hluti af heildarmynd fyrirtækisins sem vinnur náið með framúrskarandi arkitektum og hönnuðum þvert á greinar. Þessi framsýni á svo sannarlega þátt í því að fyrirtækið hefur notið þeirrar velgengni sem raun ber vitni og átt sinn þátt í vinsældum Íslands sem áfangastaðar. Bláa lónið er eitt besta dæmið á Íslandi um það að fjárfesting í góðri hönnun margborgar sig.“

Forval dómnefndar 2017

Einkenni listahátíðarinnar cycle
Listahátíðin Cycle er skapandi vettvangur fyrir samtal tilraunakenndrar samtímatónlistar og myndlistar þar sem listamönnum gefst kostur á að ræða saman, gera tilraunir og læra hver af öðrum. Döðlur hönnuðu merki og heildarásýnd hátíðarinnar og sækja þar í hugmyndafræði hennar um hringrás hugmynda.

„Heildarásýnd Cycle endurspeglar áherslur hátíðarinnar á einfaldan en tilraunakenndan hátt með aðferðafræði hennar að leiðarljósi. Döðlur nýta sér hringformið og hreyfingu sem útgangspunkt og takmarka sig í notkun lita, leturs og forma sem dregur þannig fram grunnhugmyndina og skilar stílhreinni og sterkri heildarmynd.“

Marshall-húsið
Marshall-húsið sem upphaflega var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Arkitektarnir Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, eigendur Kurt og Pí stofunnar, hafa leitt hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta.

„Verkið kristallar velheppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. Arkitektarnir þróuðu verkið allt frá hugmyndastigi og leiddu saman breiðan hóp til að skapa heilsteypt verk. Unnið er vel með sögu byggingar og samhengi staðar og til verður nýr áfangastaður á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni. Verkið er gott dæmi um hvernig með aðferðum hönnunar verður til nýsköpun í borgarumhverfinu.“

Reitir Workshop + Tools for Collaboration
REITIR WORKSHOP er alþjóðlegt samstarfsverkefni þeirra Ara Marteinssonar hönnuðar og Arnars Ómarssonar myndlistarmanns, sem stóðu fyrir þverfaglegum vinnusmiðjum í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 2012-2016. Í kjölfarið kom út leiðarvísirinn, REITIR – TOOLS FOR COLLABORATION, sem var ritstýrt og hannaður af Sophie Haack. Þar er lesendum boðið að stela hugmyndum vinnusmiðjanna og þróa áfram.

„REITIR WORKSHOP byggir á samfélagslegri staðbundinni nálgun, skapandi ferli og mikilvægi samstarfs sem eru öflug verkfæri fyrir krefjandi verkefni framtíðar. Bókin REITIR – TOOLS FOR COLLABORATION er verkfærakista skapandi, þverfaglegs samstarfs og um leið heimild um hönnun samtímans.“

Orlofshús BHM í Brekkuskógi
Í kjölfar samkeppni um hönnun orlofshúsa Bandalags háskólamanna í Brekkuskógi í Bláskógabyggð voru tvö þeirra byggð eftir hönnun PKdM árið 2015. Húsin einkennast af ríkri efniskennd með umlykjandi landslagsmótun, hlöðnum veggjum, kolaðri timburklæðningu og grasi grónu þaki.

„Húsin skapa mikla sérstöðu í landslagi orlofshúsanna í Brekkuskógi. Ytra byrði skapar áhugaverða ásýnd í kjarrivöxnum gróðrinum. Landslagsmótun og hlaðnir garðar móta skjólgóð og skemmtileg ytri viðverurými með fallegri tengingu við umhverfið. Skýr og einföld innri rýmisskipan og samverurými eru vel útfærð og þjóna vel tilgangi orlofshúsanna.“

Saxhóllforval
Gígurinn Saxhóll er vinsæll ferðamannastaður í þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Í gegnum tíðina hafði myndast slóði sem með auknum ágangi ferðamanna var kominn að þolmörkum. Landslag fékk það verkefni að hanna varanlegan stíg sem takmarkaði umgang ferðamanna við ákveðið svæði.

„Stígurinn er gott dæmi um hvernig hlúa má á faglegan og fagurfræðilegan hátt að vinsælum ferðamannastöðum með áherslu á verndun viðkvæmrar náttúru. Tröppustígurinn er smíðaður úr svörtu stáli og látinn ryðga og samlagast þannig um leið rauðleitum tónum eldgígsins. Hönnunin er mínímalísk, smíðin fáguð og fíngerður strúktúrinn liðast á ljóðrænan hátt upp gamla farveginn.“

Dómefnd 2017

Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður, Hönnunarmiðstöð
Magnús Hreggviðsson, grafískur hönnuður, sitjandi varamaður, Hönnunarmiðstöð / Högni Valur Högnason vék / varamaður Kristín Eva Ólafsdóttir
Katrín María Káradóttir, fatahönnuður, LHÍ / varamaður Laufey Jónsdóttir
Sigrún Birgisdóttir, arkitekt, LHÍ / varamaður Björn Guðbrandsson
Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður, Hönnunarmiðstöð / varamaður Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir
Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri, SI

Hönnunarverðlaunin 2016

Sigurvegari As We Grow

As We Grow er íslenskt hönnunarfyrirtæki í eigu Guðrúnar Rögnu Sigurjónsdóttir prjónahönnuðar, Maríu Th. Ólafsdóttur fatahönnuðar og Grétu Hlöðversdóttur framkvæmdastjóra. Með vörulínunni tvinna þær saman fagurfræði, hefðum og nútíma í endingargóðan fatnað sem bæði vex með hverju barni og endist á milli kynslóða.

As We Grow byggir á ábyrgum umhverfissjónarmiðum og afstöðu gagnvart líftíma og endingu framleiðsluvöru á tímum ofgnóttar. Tímalaus einfaldleiki hönnunar og einstök gæði vöru hafa ásamt samfélagslegri ábyrgð og metnaðarfullri stefnu í umhverfismálum skapað fyrirtækinu sérstöðu heima og heiman.“  

Besta fjárfesting í hönnun Geysir

viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun eða arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. „Geysir hefur fengið einhverja færstu hönnuði landsins
til starfa á öllum vígstöðvum, hvort sem við á um vörumerki, ímyndarsköpun, hönnun verslana, grafíska hönnun eða fatahönnun. þannig hefur fyrirtækið skilgreint mikilvægi hönnunar í öllu þróunarferli og skapað ímynd og upplifun tengda fyrirtækinu með framúrskarandi hætti. með því að setja
þátt hönnunar í öndvegi hefur Geysir á skömmum tíma náð einstökum árangri og er orðið eitt þekktasta vörumerki landsins.“

Forval Dómnefndar 2016

Lulla doll
Lulla doll er afrakstur Eyrúnar Eggertsdóttur frumkvöðuls, Birnu Bryndísar Þorkelsdóttur hönnuðar og Sólveigar Gunnarsdóttur markaðsstjóra. Dúkkunni er ætlað að róa og veita ungabörnum öryggistilfinningu og betri svefn, en hún líkir eftir hjartslætti og andardrætti foreldris.

„Lulla doll er frumleg og hugvitsamleg hönnun þar sem stuðst er við vísindarannsóknir og ráðgjöf sérfræðinga. Verkefnið minnir á mikilvægi uppfinninga, samvinnu ólíkra sviða og nauðsyn þrautseigju og sannfæringarkrafts til að opna augu fjárfesta og leiða hugmynd til framleiðslu.“

Or Type
Leturstúdíóið Or Type stofnuðu grafísku hönnuðirnir Guðmundur Úlfarsson og Mads Freund Brunse árið 2013. Letur þeirra hafa nú þegar farið víða og verið notuð á fjölbreyttar vörur s.s. tímarit, umbúðir og búninga íslenska karla- og kvennalandsliðsins í knattspyrnu á EM.

„Með leturhönnun sinni hafa þeir lagt sig fram um að opna augu almennings fyrir fjölbreyttari möguleikum í leturhönnun og um leið skorað staðalímyndir í faginu á hólm. Leturstúdíóið starfrækir rafrænt „leturbókasafn“ aðgengilegt öllum á netinu.”

orka til framtíðar
Sýningin Orka til framtíðar í Ljósafossstöð skýrir á gagnvirkan hátt orku og hvernig má bæði beisla hana og nýta. Hönnuðir sýningarinnar eru Gagarín og Tvíhorf arkitektar en fjöldi annarra fyrirtækja og sérfræðinga komu að sýningunni.  

„Sýningin er samvinnuverkefni sem ber með sér háan gæðastuðul. Metnaðarfullar útfærslur, tæknilausnir og útlit hjálpast að við að gera upplifun gesta á öllum aldri ánægjulega og upplýsandi.“

Dómefnd 2016
Harpa Þórsdóttir, formaður, Hönnunarmiðstöð
Högni Valur Högnason, grafískur hönnuður, Hönnunarmiðstöð / varamaður / varamaður Kristín Eva Ólafsdóttir
Katrín María Káradóttir, fatahönnuður, LHÍ / varamaður Laufey Jónsdóttir
Massimo Santanicchia, arkitekt, LHÍ / varamaður Sigrún Birgisdóttir
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, vöruhönnuður, sitjandi varamaður, Hönnunarmiðstöð /Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður sat hjá
Almar Guðmundsson, hagfræðingur, SI

 

 

 

Hönnunarverðlaunin 2015

Sigurvegari Eldheimar

Sýningin Eldheimar – gosminjasýning í Vestmannaeyjum, er verk Axels Hallkells Jóhannesssonar sýningarhönnuðar, Gagarín sem hannaði gagnvirka sýningarhluta, arkitektsins Margrétar Kristínar Gunnarsdóttur og Lilju Kristínar Ólafsdóttur landslagsarkitekts.  

„Sýningin miðlar einstökum atburði í náttúrusögu Íslands með framúrskarandi hætti. Sýningin er til vitnis um hugmyndaríkar og vel útfærðar leiðir til að ná til gesta með öflugum sjónrænum og gagnvirkum hætti. Verkefnið er einstaklega metnaðarfullt og gildi þess ótvírætt þegar litið er til þverfaglegs samstarfs hönnuða og arkitekta.“

Besta fjárfesting í hönnun Össur

Össur er fyrsta fyrirtækið til að hljóta viðurkenninguna besta fjárfesting í hönnun. Fyrirtækinu hefur tekist að brúa bilið milli hönnunar, vísinda og rótgróinnar framleiðslu með fyrirmyndar árangri.

Össur hefur allt frá stofnun árið 1971, lagt áherslu á, fjárfest í og skilgreint hönnun sem einn af meginþáttum þróunarferlisins. Þá hefur fyrirtækið með gildum sínum hvatt starfsfólk sitt til að keppa stöðugt að framförum, bjóða óskrifuðum reglum byrginn og taka meðvitaða áhættu. Árangurinn er óumdeildur og fyrirtækinu ítrekað tekist að koma tímamótahönnun á markað sem gjörbreytt hafa lífsgæðum viðskiptavina þess.

Forval Dómnefndar 2015

Allt til eilífðar
Allt til eilífðar er landslagsverk við Garðakirkju á Álftanesi og varð til fyrir tilstuðlan foreldra Guðrúnar Jónsdóttur, sem lést sviplega árið 2006. Verkið er hannað af Studio Granda arkitektum og unnið í samstarfi við Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmann.

„Verkefnið sækir til íslenskrar byggingararfleifðar og tengir fortíð, nútíð og framtíð saman með áþreifanlegum og huglægum hætti. Verkefnið ber með sér auðmýkt og er óður um tilvist okkar og rætur. Það endurspeglar fágun og þjóðfélagslega ábyrgð arkitektúrs sem tekur tillit til samfélags og umhverfis.“

Aníta Hirlekar
Fatahönnun Anítu Hirlekar einkennist af sterkum litasamsetningum og handbróderuðum textíl. Innblástur er fenginn úr óreiðukenndu flæði lita á bakhlið útsaums og er fatnaðurinn með handsaumuðum línum og hangandi marglitum þráðum sem þekja yfirborð efnisins eins og kraftmiklar pensilstrokur.

„Nýstárleg nálgun hönnuðarins í textílvinnslu sameinar handverk og tískuvitund með einkennandi hætti. Skúlptúrísk snið, listræn litatúlkun og efni sem hafa einstaka áferð handunnins ullarefnis þar sem áhrif útsaums eru greinileg og skapa meðvitund um fegurð handverksins“

Eldheimar
Sýningin Eldheimar – gosminjasýning í Vestmannaeyjum, er verk Axels Hallkells Jóhannesssonar sýningarhönnuðar, Gagarín sem hannaði gagnvirka sýningarhluta, arkitektsins Margrétar Kristínar Gunnarsdóttur og Lilju Kristínar Ólafsdóttur landslagsarkitekts.  

„Sýningin miðlar einstökum atburði í náttúrusögu Íslands með framúrskarandi hætti. Sýningin er til vitnis um hugmyndaríkar og vel útfærðar leiðir til að ná til gesta með öflugum sjónrænum og gagnvirkum hætti. Verkefnið er einstaklega metnaðarfullt og gildi þess ótvírætt þegar litið er til þverfaglegs samstarfs hönnuða og arkitekta.“

Íslenski fáninn
Íslenski fáninn, verk grafíska hönnuðarins Harðar Lárussonar rekur rætur sínar í skýrslu fánanefndar frá 1915. Verkefnið spannar langan tíma og telur meðal annars bók þar sem gömlu fánatillögurnar eru teiknaðar upp í fyrsta sinn, síðar leiðarvísi með umgengnisreglum um íslenska þjóðfánann, sýningu og viðburð á HönnunarMars og samstarf við forsætisráðuneytið í skilgreiningu prent- og skjálita fánans.

„Verkefnið sýnir með ótvíræðum hætti mikilvægi metnaðarfullrar rannsóknarvinnu og góðrar hönnunar við að taka utan um arfleifð og færa til samtímans. Verkefnið varpar ljósi á þekkingarleit hönnuða sem er órjúfanlegur þáttur í vinnu þeirra.“

Primitiva 
Primitiva eftir Katrínu Ólínu Pétursdóttur er þróun þrívíðs formheims. Verkið er safn fjörutíu verndargripa sem steyptir eru í brons en byggja á þrívíddarprentun. Úr varð hugmyndakerfi um gripina sem standa fyrir ákveðið hugtak sem snertir innri vitund þess sem ber gripinn. Samhliða gripunum skrifaði Katrín leiðabókina Primitiva, book of Talismans.

„Með verkinu teflir hönnuður saman á einstakan hátt tilvistarlegum vangaveltum og hátæknilegum framleiðsluferlum, en verkið sameinar með eftirtektarverðum hætti nýsköpun, tækni, hönnun og heimspeki. Verkefnið er samofið þroskaferli hönnuðarins, það ber með sér kyngimagnaðan kraft og ber vott um mikla rannsóknarvinnu.“

Dómefnd 2015
Harpa Þórsdóttir, formaður, Hönnunarmiðstöð
Kartín María Káradóttir, fatahönnuður, LHÍ
Massimo Santanicchia, arkitekt, LHÍ / varamaður Sigrún Birgisdóttir
Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður, Hönnunarmiðstöð / varamaður Guðrún Lilja
Almar Guðmundsson, hagfræðingur, SI

Hönnunarverðlaunin 2014

Sigurvegari Designs from Nowhere

Austurland: designs from Nowhere snýst um að kanna möguleika til smáframleiðslu á Austurlandi, þar sem notast er við staðbundin hráefni og þekkingu. Pete Collard,  listrænn stjórnandi hjá Design Museum í London og Karna Sigurðardóttir vöruhönnuður og kvikmyndaleikstjóri áttu frumkvæði að verkefninu og fengu til liðs við sig hönnuðina  Þórunni Árnadóttur, Gero Grundmann, Max Lamb og Juliu Lohmann til að þróa sjálfstæð verkefni í nánu samstarfi við handverksfólk og fyrirtæki á Austfjörðum.

Með því að tengja saman á óvæntan hátt mannauð, staði og hráefni varð til áhrifaríkt samstarf þar sem nýjir hlutir urðu til.Verkefnið sýnir á afar sannfærandi hátt að hlutverk hönnuða í dag felst í æ ríkari mæli í því að efla sýn og auka metnað til sköpunar og framleiðslu. Landsbyggðin hefur víða notið góðs af aðkomu hönnuða og hafa mörg sveitarfélög á Íslandi, fyrirtæki og bændur tekið þátt fjölbreyttum verkefnum á síðustu árum, þar sem leitast er við að finna nýjar leiðir í hráefnisnotkun með mjög góðum árangri. Þetta verkefni, sem var bundið við Austurland, sýnir að með samstilltri sýn og virðingu fyrir menningu á hverjum stað, þar sem handverk og staðbundinn efniviður er kannaður til hlítar, felur í sér aukin tækifæri til að skapa framúrskarandi verk og hlýtur að vera hvatning öllum til handa.

Verkefnið sýnir fram á að landfræðileg mælistika, í þessu tilviki, landshluti yfir 20 000 km2 með aðeins 12 500 íbúa, þarf ekki að vera  fyrirstaða til að skapa þróttmikil hönnunarverkefni, þar sem glímt er við ríkjandi viðfangsefni vestrænna samfélaga.

Verkefnið hefur verið kynnt á afar vandaðan hátt í máli og myndum; á sýningum og með 30 mínútna heimildarmynd um verkefnið eftir þau Körnu Sigurðardóttur og Sebastian Ziegler, þar sem vinnuferlinu eru gerð góð skil.

Upphaf verkefnis má rekja til ráðstefnunnar Make It Happen, Creative Thinking Conference in East Iceland, sem haldin var í september 2012 af MAKE by Þorpið og Austurbrú. Á ráðstefnuna komu hugmyndasmiðir, hönnuðir, menningarfrömuðir og stjórnmálamenn og ræddu þá möguleika sem voru til staðar á Austurlandi til smáframleiðslu.

Verkefnið var kynnt á HönnunarMars 2014 í Spark Design Space í Reykjavík. Síðan þá hefur verkefnið verið kynnt í Moskvu og á hönnunarhátíðinni London Design Festival í september síðastliðnum.

Forval Dómnefndar 2014

H71a
Ljósmyndastúdíó H71a á Hverfisgötu, hannað af Studio Granda, er vandlega úthugsuð úrlausn, þar sem tekst á sannfærandi hátt að aðlaga viðbyggingu, húsinu sem fyrir er. Þessi leið, minniháttar inngrip í byggingarlist, er nauðsynleg til að viðhalda útþenslu miðbæjar Reykjavíkur. Viðbyggingin sýnir að hægt er að teikna nýbyggingar og reisa þær í samræmi við það umhverfi sem fyrir er.

Skvís
Verkið skvís eftir sigga eggertsson sem sýnt var í spark design space 2013 sýndi á einstakan hátt kraft og gildi grafískrar hönnunar og þá upplifun sem hún getur skapað. í einstaklega litríku verkinu er að finna átta andlit, en verkið er borið uppi af abstrakt mynsturgerð sem siggi hefur þróað og er höfundareinkenni verka hans. grafísk hönnun sigga var sett í nýtt samhengi með sýningunni, þar sem áhorfandinn gekk inn í optíska og orkumikla mynstursmiðju hönnuðarins, þar sem mörk tvívíðs og þrívíðs rúms mættust.

Magnea AW2014
Magnea AW2014 eftir fatahönnuðinn magneu einarsdóttur var sýnd á reykjavík fashion festival fyrr á árinu. magnea leggur ríka áherslu á prjón og textíl í hönnun sinni og nýtir að miklu leyti íslenskt hráefni í bland við nýstárlegri efni. nálgun hennar er fersk og einkennist af ítarlegri rannsóknarvinnu og tæknilegri þekkingu. niðurstaðan eru óvæntar, stílhreinar, grafískar flíkur, ríkar af áferðum, prjóni og áhugaverðum frágangi.

Dómefnd 2014
Harpa Þórsdóttir, formaður
Massimo Santanicchia, lektror í arkitektúr
Örn Smári Gíslason, grafískur hönnuður
Laufey Jónsdóttir, fatahönnuður
Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður